Nóttleysa
Höfundur: Örn Friðriksson
Textahöfundur: Erlingur Sigurðarson
Horfin er sól af himninum bláum,
Húmskuggar sveipa nú landið hljótt.
Döggvanna bikar blómum og stráum
ber þeim hin ljóshærða miðsumarnótt.
Allt heldur anda: yfir fjöllum ró og friður.
Fuglar byrgja höfuð undir flugþreyttum væng.
Lætur í eyrum blítt lækjarins niður.
Á lyngbakka grænum er okkur búin sæng.
Náttdöggvum laugumst; nektar okkar njótum við
í nóttleysunnar veldi, meðan sól blundar rótt.
Áður en hún verður aftur á fótum,
við óskasteininn fáum á fjallið sótt.
Hann flýtur upp í tjörninni við tindinn nú í nótt.